08 júní 2007

Kína

Ég hef verið að fylgjast með fréttum frá Kína á Aljazeera og finnst ýmislegt benda til þess að farið sé að krauma undir í samfélaginu. Um daginn urðu uppþot í sveitahéruðum þegar erindrekar ríkisins voru að fetta fingur út í að fólkið þar eignaðist fleiri börn en leyfilegt er. Mér finnst ólíklegt að þetta hefði gerst fyrir t.d. tíu árum síðan. Yfirleitt hafa kínversk stjórnvöld ekki skipt sér svo mikið af barneignum fólks í afskekktum héruðum landsins en með aukinni velmegun í landinu og batnandi samgöngum eru þau kannski farin að teygja arma sína lengra. Fyrir stuttu síðan voru svo hávær mótmæli námsmanna gagnvart stjórnvöldum og höftum á tjáningarfrelsi. Í fréttaskýringunni sem ég var að horfa á áðan kom fram að hópur fólks notar Netið til þess að tjá óánægju sína og mætti kannski kalla þau andófshóp á Netinu. Þeim er hótað öllu illu ef þau sjái ekki að sér en enn hafa þau ekki gefið eftir og mér kæmi ekki á óvart að með sama áframhaldi megi búast við einhverjum látum.
Það sem gerist ef marka má stjórnmálafræðinginn Donald Horowitz, er að óánægjan brýst út hér og þar í þessu stóra landi og getur verið þannig í einhver ár að byggja upp undirliggjandi þrýsting. Það má líkja þessu við hræringar í jarðskorpunni sem eru undanfari eldgoss, smáskjálftar hér og þar en á endanum verður stórt gos. Ég held áfram að fylgjast með og er nokkuð viss um að þetta endi með gosi. Tímasetning skiptir miklu máli í tengslum við aðstæður sem leiða til goss. Eins og þegar Berlínarmúrinn féll. Það sem var að gerast í gömlu Sovétríkjunum, glasnost og Gorbatsjov átti stóran þátt í að fólk í A-Þýskalandi þorði að láta til sín taka og mótmæla af því búið var að draga vígtennurnar úr stjórnvöldum. Enga hjálp var að fá frá gamla Sovét.

Engin ummæli: