02 ágúst 2007

Adam og Eva

Ég held það sé óhætt að segja að Íslendingar viti almennt afskaplega lítið um Islam og hvað þá að þau trúarbrögð séu sprottin af sama meiði og Gyðingdómur og Kristni. Mig langar því að henda inn annað slagið smáupplýsingum um Islam og ekki síst vel þekkt minni eins og Adam og Evu og fæðingu Jesú. Já og vel á minnst Allah er ekki einhver annar Guð en Guð kristinna eða gyðinga. Allah er einfaldlega arabíska og þýðir Guð. Islam þýðir Beina brautin og múslimi þýðir hinn undirgefni eða auðmjúki.

Í 1. Mósebók 2.7 í Biblíunni er Adam sagður hafa verið búinn til af leiri jarðar en Eva úr rifbeini Adams.

Í súruh 4.1 í Kóraninum er sköpun mannsins lýst en þar er ekki minnst á neitt rifbein heldur er mannkyn sagt skapað af einni Persónu (Adam væntanlega) en Guð hafi jafnframt skapað maka hans með samskonar eðli (jafningja) og út frá þeim tveim hafi allt mannkyn, konur og karlar dreifst um alla jörð.

Eins og flestir vita sem hafa alist upp í "kristnu" samfélagi þá má rekja erfðasyndina til Evu blessaðrar sem plataði aulann hann Adam til að bíta í eplið á Skilningstrénu. Það fauk í Guð og hann refsaði þeim nokkuð harkalega að mínum dómi, en hvað um það þetta mun vera ástæðan fyrir því að börn fæðast syndug. Hér áður þegar mikið var um barnadauða þurfti oft að skíra skemmri skírn í snatri áður en nýfætt barn dó svo það fengi kristilega útför og kæmist til himna.. Það gat valdið fólki miklu hugarangri ef ekki tókst að skíra barn í tæka tíð því þá dó það syndugt. Útburðir fyrri alda voru til að mynda ekki skírðir og fengu því engan frið, vælandi á kvíaveggnum fólki til mikils ama. Kaþólikkar eru þó enn harðari í þessu og senda óskírð syndug börn beint í hreinsunareldinn.

Í Islam er þessu öðru vísi farið. Adam og Eva voru vissulega í Eden og Satan var líka með puttana í málum þar (þó ekki sem höggormur). Munurinn er sá að í Islam er skuldinni ekki skellt á Evu ræfilinn heldur eru þau gerð jafnábyrg og þar sem Guð er miskunnsamur þá er þeim fyrirgefið en geta ekki búið lengur í Eden og verða því að gera jörðina að bústað sínum (Súrah 2.36). Því fylgja þó engar bölbænir um þyrna og þistla fyrir Adam eða þau ósköp sem lögð voru á Evu ræfilinn eins og segir í 1. Mósebók 3.16. En við konuna sagði hann: Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.

Því fæðast öll börn múslima hrein og saklaus og markmiðið er að halda þeim hreinleika eins og kostur er það sem eftir er ævinnar. Það er að segja að halda sig á beinu brautinni = Islam.

Engin ummæli: