26 desember 2007

Heimilislausir í New York og Reykjavík

Það er áhyggjuefni finnst mér hvert húsnæðismarkaðurinn er að stefna. Þegar lágmarkslaun duga ekki einu sinni fyrir leigu þá ættu viðvörunarbjöllur samfélagsins að hringja hátt og mikið. Í New York hefur heimilislausum fjölgað verulega síðustu þrjú til fjögur ár og virðist ástæðan vera einmitt sú að laun hafa ekki hækkað að sama skapi og húsaleiga. Nú er svo komið að láglaunafólk getur ekki lengur greitt húsaleigu og neyðist því til að flytja á götuna. Það eru ekki bara einstaklingar sem eiga við áfengis- og fíkniefnavanda eða geðsjúkdóma að stríða sem hrekjast á götuna, heldur eru nú fjölskyldur með börn á framfæri sem leita í gistiskýli heimilislausra. Ég horfði á þátt frá kanadíska sjónvarpinu þar sem málefni heimilislausra í New York voru í brennidepli. Þar var m.a. fylgst með ungri barnafjölskyldu sem gekk á milli skýla með börnin sín tvö 14 mánaða og fjögurra ára. Alls staðar var fullt og á endanum var þeim sagt að þau mættu koma eftir miðnætti og liggja inni um nóttina. Þangað til þurftu þau að ráfa um göturnar til að halda á sér hita í vetrarkuldanum. Einhvern vegin getur maður ekki ímyndað sér að þetta geti gerst hér á landi þar sem ættingjar hlaupa oftast undir bagga í svona tilvikum. Það er samt ekki hægt að líta framhjá því að fjöldi útlendinga hefur sest hér að og stór hluti þeirra vinnur lægst launuðu störfin þar sem útborguð laun duga skammt þegar kemur að því að greiða leigu og uppihald. Þessi hópur hefur ekki sama tengslanet og innfæddir Íslendingar. Það eru líka mannréttindi að geta haldið þeirri sjálfsvirðingu að geta búið börnum sínum heimili. Ansi er ég hrædd um að margar einstæðar mæður í láglaunavinnu séu nú eða geti lent einmitt í þeirri aðstöðu að hafa ekki efni á að leigja húsnæði ef svo heldur sem horfir. Ég ætla rétt að vona að hún Jóhanna verði sjálfri sér trú og geri eitthvað róttækt í þessum málum áður en illa fer.