16 september 2007

Everywoman

Mér til mikillar ánægju þá uppgötvaði ég að Aljazeera setur útsenda þætti á youtube. Ég missi nefnilega stundum af áhugaverðum þáttum en nú get ég séð þá. Everywoman er einn af mínum uppáhaldsþáttum því set ég sýnishorn af honum hér inn. Þetta er bara helmingurinn af þættinum, þeim er venjulega skipt í tvo hluta á youtube.

08 september 2007

Japan í dag

Japan hefur löngum haft orð á sér fyrir að vera land íhaldssemi og feðraveldis. Hjónabönd voru ákveðin af foreldrum og eiginkonum ætlað að vera undirgefnar eiginmönnum sínum. Vinnustaðamenning japanskra karlmanna er velþekkt þar sem karlarnir helga líf sitt vinnuveitanda sínum og vinna ekki undir fimmtán klst. á dag. Hver kannast ekki líka við að hafa séð í bíómyndum japanska karla vera saman í hóp á veitingahúsum að syngja karókí (sem er víst óskaplega vinsælt hjá þeim) eða þann gamla sið að láta þjóna sér af geishum. Þetta hefðbunda japanska samfélag er þó á undanhaldi því miklar breytingar hafa átt sér stað síðustu tíu ár og nú er svo komið að stjórnvöld eru orðin uggandi um framtíðina og viðhald þjóðarinnar.
        Það sem hefur gerst er að konur eru farnar að sækjast eftir frama á vinnumarkaðnum á kostnað hjónabands og barneigna. Þegar þær svo loks eignast börn þá er það bara eitt eða í mesta lagi tvö börn. Fyrirframákveðin hjónabönd heyra nánast sögunni til því ungt fólk vill taka upp þann vestræna sið að giftast af ást. Ástin virðist þó ekki auðfengin eða eins og ung blaðakona sagði í viðtali þá er ungt fólk í Japan, bæði konur og karlar, hrætt við þá skuldbindingu sem fylgir hjónabandinu.
       Hvað gera þá ungar japanskar framakonur sem vinna ekki minna en karlarnir, eða um fimmtán tíma á dag. Jú þær leigja sér kærasta. Þær fara á svokallaða Host Club þar sem ungir myndarlegir karlmenn taka á móti þeim og sinna þeim allt kvöldið fyrir 2000 dollara. Þær geta valið karlmann sem þeim líst á og átt með honum rómantíska kvöldstund með mat, drykk og dansi. Á milli heimsókna í klúbbinn eru þær í síma- og sms sambandi við hinn leigða kærasta. Með þessu móti geta þær átt kærasta án þess að skuldbinda sig.
       Það eru ekki bara ungar konur sem eru að breytast því fullorðnar konur sem hafa verið heimavinnandi alla æfi eru líka farnar að hegða sér öðruvísi. Þeir karlar sem nú eru að fara á eftirlaun eru fyrsta kynslóðin sem hefur unnið alla sína ævi innan þeirrar japönsku vinnustaðamenningar sem varð til eftir síðari heimsstyrjöldina. Eiginkonur þeirra hafa vanist því að hafa mikinn frítíma frá þeim enda þeir alltaf í vinnunni og þær eru ekki par hrifnar af því að sitja allt í einu uppi með bjargarlausa karla sem sitja allan daginn fyrir framan sjónvarpið og kalla reglulega til að láta færa sér mat eða drykk. Þær komast ekki  lengur út úr húsi og eru því farnar að gefa þeim spark í rassinn og senda þá á námskeið í heimilishaldi þar sem þeir læra að elda, 
kaupa inn og þrífa. Nú eða hreinlega skilja við þá og hirða helminginn af eftirlaununum þeirra.
      Eiginkonurnar gera óspart grín að karlagreyjunum og kalla þá hvolpa sem elti þær á röndum eða blaut, fallandi lauf. Þetta mun vera farið að hafa fyrirbyggjandi áhrif því körlunum þykir minnkun að því að láta gera grín að sér og því telja konur líklegt að smám saman dragi úr þessu bjargarleysi karlanna og þeir taki meiri þátt á heimilinu. Reyndar sagði sama blaðakona að feðraveldið í Japan væri í raun bara mýta. Konur hefðu alltaf haft töglin og haldirnar í hjónabandinu sem sæist vel á viðbrögðum þeirra við því að karlarnir væru alkomnir heim. Sýnt var innslag 
þar sem hópur af körlum á eftirlaunaaldri var á matreiðslunámskeiði, allir með litríkar skuplur á höfðinu :)

Heimild: Everywoman á Al Jazeera

02 september 2007

Trúboðar

Fyrir utan kirkjur í Bandaríkjunum þá senda kristnar kirkjur í S-Kóreu flesta trúboða úr landi til að boða kristna trú.
Ég var að horfa á áhugaverðan þátt þar sem verið var að ræða mál S-kóresku trúboðanna í Afghanistan. Hversu siðlegt eða gáfulegt er það að senda hóp af ungu fólki á hættuleg átakasvæði eins og Afghanistan til þess að stunda trúboð? 25% af S-kóresku þjóðinni eru kristinnar trúar og því ættu að vera nægar sálir á þeirra heimaslóðum til að flytja boðskapinn til.

Af hverju þá að senda trúboða á svæði þar sem mikil neyð ríkir, ekki til að vinna hjálparstarf og líkna særðum og sjúkum heldur til að boða kristna trú. Eru kristnir trúboðar þá ekki að notfæra sér neyð fólksins til þess að koma boðskapnum til þeirra, eins og einn viðmælandi vildi meina. Annar viðmælandi benti á að kristnir trúboðar hefðu stundað þetta frá upphafi. Undantekningarlaust hefðu nýlenduherrar fylgt í kjölfarið á trúboðum til þess að gera lönd að nýlendum þegar trúboðarnir voru búnir að undirbúa jarðveginn fyrir komu þeirra. Persónulega þá tel ég trúboða hafa eyðilagt heilu samfélagin með hroka og skilningsleysi á hefðum innfæddra. Ég las t.d. ferðabók Vilhjálms Stefánssonar þar sem hann sagði trúboða hafa hamrað svo á þvi við inúítana að halda ætti hvíldardaginn heilagann að enginn þorði að veiða sunnudögum. Þá skipti ekki máli þótt ekki hefði gefist veður á sjó alla vikuna og ekkert væri til að borða. Svo mikið óttuðust þeir refsingu Guðs við að brjóta helgi hvíldardagsins, enda voru trúboðar þá ekki mikið að boða ást og kærleika heldur lögðu ríka áherslu á Helvíti og hinn refsandi Guð.

Prestur sem talað var við í þættinum sagði trúboðana fara til landa eins og Afghanistan til að boða kærleika og það væri réttur fólks að trúa því sem það vildi. Hann sagði að venjan væri sú að trúboðar öfluðu sér fyrst trausts innfæddra og þegar það væri komið þá færði það þeim orð Guðs. Hmmm ég segi nú eins og einn viðmælandinn, já en afhverju endilega í múslímsku landi þar sem fólk býr við mikla neyð. Af hverju ekki í eigin heimalandi þar sem 75% þjóðarinnar er ekki kristinnar trúar?