30 ágúst 2007

Konur í Íran

Ég fór á fyrirlestur s.l. mánudag þar sem bandarískur/íranskur prófessor hélt fyrirlestur um Íran og Ahmadinej. Nú veit ég hvernig íranskar konur geta náð völdum he he. Í Íran eru nú 2 milljónir manna sem eru háðir fíkniefnum og eru það nánast allt karlmenn. Afleiðingin er sú að konur eru nú komnar í störf sem alla jafna hafa tilheyrt karlmönnum, bæði í borgum og þorpum. Í háskólum eru konur orðnar í miklum meirihluta og jafnvel upp í 90% í sumum deildum eins og arkitektúr. Að vísu fækkaði karlmönnum verulega í stríðinu við Írak á sínum tíma og á það líka sinn þátt í þessari þróun. Smám saman hafa konur því verið að ná litlum áfangasigrum í réttindabaráttu sinni og með þessu áframhaldi ættu þær með tímanum að ná að rétta enn meira sinn hlut ef ekki bara að ná völdum. Bara að halda dópinu að körlunum og þá hætta þeir að vera til trafala he he. Það er að segja ef Bandaríkjamenn klúðra því ekki fyrir þeim með því að ráðast á landið eins og gerðist í Írak þar sem konur (þær sem enn lifa) eru aftur komnar á þann stað sem þær voru fyrir 50 árum.

23 ágúst 2007

Jesús og María

Jæja þá er komið að fæðingu Jesú og hlutverki hans í Islam. María var heimsótt af engli (já það eru líka englar í islam) í karlmannslíki sem sagði að hann væri sendur af Guði til að tilkynna henni að hann myndi gefa henni heilagan son. Það kom Maríu nú frekar á óvart þar sem hún var bæði ógift og hrein mey (það er ekki minnst á neinn Jósef). Það er ekkert mál sagði engillinn, Guð er alls megnugur og fer létt með að búa til eitt barn.

Ekkert er minnst á hvað gerðist hjá Maríu í framhaldi af því fyrr en kemur að því að hún fæðir. Þá fer hún ein í vin í eyðimörkinni og fæðir í kyrrþey undir döðlupálma. Þegar hún kemur aftur til byggða með barnið í fanginu þá rekur fólk að sjálfsögðu upp stór augu og fer að spyrja hana hvernig standi á þessu. Hún segir ekki neitt en bendir bara á barnið sem þeim til undrunar er altalandi (vegna anda Guðs í honum) og svarar sjálfur: ég er þjónn Guðs og hann hefur gefið mér opinberun og gert mig að spámanni. Hann hefur fyrirskipað mér að helga mig bæn og líknarstarfi. Friður sé með mér þann dag sem ég fæddist, þann dag sem ég dey og þann dag sem ég rís upp frá dauðum.

Ástæðan fyrir því að Jesús er ekki talinn sonur Guðs er sú að það myndi gera hann að jafningja Guðs en það er ómögulegt því það er bara EINN Guð. Því er fæðing hans og getnaður kraftaverk Guðs sem síðan blæs í hann anda sínum og gerir hann að spámanni. Enn bendi ég á að Islam þýðir beina brautin sem er vegna þess að Múhammeð taldi menn hafa villst af leið frá braut Guðs. Móses var fyrsti spámaðurinn til að beina mönnum á brautina aftur.. Það sama átti við um þegar Jesús var gerður að spámanni, að rétta af kúrsinn. Múhameð var svo síðasti spámaðurinn sem Guð gerði út af örkinni til að koma mönnum einu sinni enn á beinu brautina. Því var honum fengið það hlutverk að skrifa niður orð Guðs svo menn hefðu það loksins svart á hvítu hvernig ætti að halda sig á beinu brautinni. Því hefur Kóraninn sömu stöðu í hugum múslima eins og Jesús í hugum kristinna. Hann er ekki bara helg bók heldur er hann holdgerving orðs Guðs. Kristnin hafði afvegaleiðst með því að gera Jesús að jafningja Guðs sem stangast á við fyrsta boðorðið "þú skalt eigi aðra Guði hafa".

Elstu súrurnar í Kóraninum eru skrifaðar af Múhameð spámanni en löngu eftir hans dag söfnuðu islamskir spekingar ýmsum sögum sem taldar voru hafðar eftir Múhameð og bættu því inn í Kóraninn. Islamskir guðfræðingar hafa allar götur síðan deilt um réttmæti þeirra í honum.
Fæðing Jesú er í súruh 19:16-40

02 ágúst 2007

Adam og Eva

Ég held það sé óhætt að segja að Íslendingar viti almennt afskaplega lítið um Islam og hvað þá að þau trúarbrögð séu sprottin af sama meiði og Gyðingdómur og Kristni. Mig langar því að henda inn annað slagið smáupplýsingum um Islam og ekki síst vel þekkt minni eins og Adam og Evu og fæðingu Jesú. Já og vel á minnst Allah er ekki einhver annar Guð en Guð kristinna eða gyðinga. Allah er einfaldlega arabíska og þýðir Guð. Islam þýðir Beina brautin og múslimi þýðir hinn undirgefni eða auðmjúki.

Í 1. Mósebók 2.7 í Biblíunni er Adam sagður hafa verið búinn til af leiri jarðar en Eva úr rifbeini Adams.

Í súruh 4.1 í Kóraninum er sköpun mannsins lýst en þar er ekki minnst á neitt rifbein heldur er mannkyn sagt skapað af einni Persónu (Adam væntanlega) en Guð hafi jafnframt skapað maka hans með samskonar eðli (jafningja) og út frá þeim tveim hafi allt mannkyn, konur og karlar dreifst um alla jörð.

Eins og flestir vita sem hafa alist upp í "kristnu" samfélagi þá má rekja erfðasyndina til Evu blessaðrar sem plataði aulann hann Adam til að bíta í eplið á Skilningstrénu. Það fauk í Guð og hann refsaði þeim nokkuð harkalega að mínum dómi, en hvað um það þetta mun vera ástæðan fyrir því að börn fæðast syndug. Hér áður þegar mikið var um barnadauða þurfti oft að skíra skemmri skírn í snatri áður en nýfætt barn dó svo það fengi kristilega útför og kæmist til himna.. Það gat valdið fólki miklu hugarangri ef ekki tókst að skíra barn í tæka tíð því þá dó það syndugt. Útburðir fyrri alda voru til að mynda ekki skírðir og fengu því engan frið, vælandi á kvíaveggnum fólki til mikils ama. Kaþólikkar eru þó enn harðari í þessu og senda óskírð syndug börn beint í hreinsunareldinn.

Í Islam er þessu öðru vísi farið. Adam og Eva voru vissulega í Eden og Satan var líka með puttana í málum þar (þó ekki sem höggormur). Munurinn er sá að í Islam er skuldinni ekki skellt á Evu ræfilinn heldur eru þau gerð jafnábyrg og þar sem Guð er miskunnsamur þá er þeim fyrirgefið en geta ekki búið lengur í Eden og verða því að gera jörðina að bústað sínum (Súrah 2.36). Því fylgja þó engar bölbænir um þyrna og þistla fyrir Adam eða þau ósköp sem lögð voru á Evu ræfilinn eins og segir í 1. Mósebók 3.16. En við konuna sagði hann: Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.

Því fæðast öll börn múslima hrein og saklaus og markmiðið er að halda þeim hreinleika eins og kostur er það sem eftir er ævinnar. Það er að segja að halda sig á beinu brautinni = Islam.