28 júní 2007

Ólíkur fórnarkostnaður

Það er stundum talað um Kína sem næsta stórveldi í efnahagsmálum. Þar hefur átt sér stað gífurleg breyting og efnahagslegur uppgangur a.m.k. í borgum landsins. Kapítalisminn með sinni efnishyggju er farinn að festa rætur í kínversku samfélagi þó enn lúti landið kommúnískri stjórn, a.m.k. í orði. Nú þurfa allir að eignast rafmagnstæki eins og til eru á hverju heimili á Vesturlöndum (allavega á Íslandi) eins og ísskáp, sjónvarp, tölvu, þvottavél o.s.frv. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þarf mikið rafmagn fyrir öll þessi tæki í fjölmennasta landi heims. Auðvitað bregðast kínversk stjórnvöld við með því að nýta vatnsaflið í landinu eins og við þekkjum svo vel. Það þarf ansi mikið meira en eina Kárahnjúkavirkjun til að uppfylla orkuþörf Kína og því eru þeir ýmist búnir að byggja og með í bígerð að byggja fjölda virkjana. Tvö stórfljót Nu/Salween og Lancang/Mekong eru í sigtinu sem ákjósanlegur virkjanakostur, reyndar er búið að byggja einhverjar virkjanir við Mekong.

Á bökkum þessara tveggja fljóta búa milljónir manna og þó fljótin eigi upptök sín í Kína (ja eða Tíbet) þá renna þau í gegnum fleiri lönd eins og Burma, Taíland, Laos og Víetnam. Áhrifa virkjana við Mekong er farið að gæta nú þegar t.d. þegar þeir "tappa af" stíflunum því þá flæðir fljótið yfir bakkana alla leið niður og það gerist ekki á hefðbundnum tímum eins og um regntímann heldur getur það komið fyrirvaralaust hvenær sem er. Þetta þýðir að garðrækt sem hefur tíðkast á bökkum fljótsins er að leggjast af því hver hefur efni eða orku að rækta garða sem geta eyðilagst hvenær sem er. Ekki nóg með það, heldur er líka aukin umferð vöruflutningaskipa um fljótið. Til þess að greiða fyrir þeim flutningum hafa Kínverjar tekið upp á því að sprengja bæði sker (þar sem fiskur hrygnir) og að dýpka fljótið. Fiskstofnar hafa því hrunið með tilheyrandi afleiðingum fyrir íbúa á bökkum Mekong allt frá Kína niður til Víetnam og nú stendur til að byggja virkjanir við Salween sem rennur í gegnum sömu lönd og Mekong. Í stað þess að vera lífæð SA-Asíu er Mekong nú að breytast í líflausan skipaskurð án þess að fólkið sem byggir tilvist sína á henni geti rönd við reist.

En hvað skal gera þegar marga milljarða vantar rafmagn og það sem fyrst til að geta tekið þátt í þeirri efnishyggju sem er fylgifiskur kapítalismans? Ekki hef ég svör við því en ég verð að viðurkenna að þó ég hafi ekki verið hrifin af Kárahnjúkavirkjun þá finnst mér núna nokkrar gæsir og bleikjur í Lagarfljóti vera hálfgerður brandari miðað við milljónir manna sem sjá fram á að lifibrauði þeirra verði kippt undan fótunum á þeim. Það er allavega ekki saman að líkja fórnarkostnaði vegna Kárahnjúkavirkjunar og virkjana í Kína.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir það að stjórnvöld í einu landi geti tekið ákvarðanir sem hafi áhrif á líf milljóna manna í mörgum öðrum löndum án þess þeir hafi neitt um það að segja. Ekki það, ég efast um að kínverskir íbúar á bökkum Mekong fái nokkuð um málið að segja heldur.


21 júní 2007

Hinir "sannkristnu" í fílabeinsturninum

Fyrir rælni lenti ég inn á bloggsíðu "sannkristins" manns. Ég renndi lauslega yfir færslurnar hans sem voru meira og minna tilvitnanir í Biblíuna og allt í lagi með það. Þegar ég fór svo að skoða kommentin á færslurnar og rekja mig inn á bloggsíður annarra "sannkristinna" manna og kvenna brá mér heldur í brún. Þarna er hópur fólks sem eys úr skálum fordóma og mannfyrirlitningu sinnar. Helstu skotmörkin eru samkynhneigðir og múslimar sem samkvæmt þessum skrifum mætti halda að væru mesta ógn mannkynsins. Sýn þessara bloggara á heiminn er algjörlega tvískipt og einstrengingsleg: kristinn/múslimi, góður/vondur, himnaríki/helvíti o.s.frv. Sérstaklega virðist þeim uppsigað við íbúa Palestínu sem í þeirra huga eru algjör andstæða íbúa Ísraels. Það kaldhæðnislega er að ástæða þess að gyðingar settust að í Ísrael eftir síðari heimsstyrjöldina var að "sannkristnir" Evrópubúar vildu ekki leyfa þeim að búa í hinni "kristnu" Evrópu og voru Íslendingar þar engir eftirbátar þegar þeir meinuðu gyðingum eftirstríðsáranna að setjast hér að.

Ég er hrædd um að annað hljóð væri í strokknum ef Bretar og Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að gyðingar mættu stofna eigið ríki hér á landi án þess að spyrja kóng né prest. Við Íslendingar hefðum verið reknir af heimilum okkar og leyft að setjast að á Vestfjörðum og í Eyjafjarðarsýslu. Þeir sem ekki hefðu sætt sig við það verið leyft að yfirgefa landið og aldrei hleypt inn aftur. Tvær til þrjár kynslóðir okkar hefðu svo alist upp í flóttamannabúðum í Danmörku og Noregi án þess að mega vinna af því þeir teldust flóttamenn. Þeir sem létu sig hafa það að vera reknir vestur og norður fengju ekki sömu réttindi og hinir nýju íbúar (gyðingarnir) þar á meðal læknisþjónustu. Við myndum sennilega með tímanum rísa upp og krefjast réttar okkar (vonandi) en yrðum þá drepin í massavís, heimili okkar eyðilögð, okkur meinað að vinna, hefðum ekkert vatn, ekkert rafmagn, Eyfirðingar múraðir inni og mættu ekki hafa samkskipti við landa sína á Vestfjörðum. Eftir 40 ár væri 70% atvinnuleysi meðal okkar, börnin okkar dæju af niðurgangi (vegna vatnsins), önnur limlest í sprengingum, hver einasta fjölskylda væri búin að missa fjölda ástvina, oft drepna fyrir augunum á þeim og engin von í augsýn um betri framtíð. Ætli þessar helgislepjur sem hampa nú Ísraelsmönnum myndu ekki reyna að berjast gegn þeim.

Hvernig getur fólk sem býr í sínum fínu húsum, berst við offitu vegna ofáts og hreyfingarleysis, keyrir um á fjallajeppunum sínum og fer reglulega í utanlandsferðir, leyft sér að réttlæta þennan yfirgang og mannréttindabrot ísraelska hersins. Það er ekki einu sinni nema hluti af ísraelsku þjóðinni sem leyfir sér svona réttlætingar. Þeim Ísraelum fjölgar stöðugt sem gagnrýna meðferð stjórnvalda sinna á íbúum Palestínu. Maður þarf ekki annað en lesa Haaretz sem er ísraelskt blað og t.d. bloggið hennar Lisu Goldman til að sjá að ekki eru allir íbúar Ísrael samþykkir yfirgangi hers og stjórnvalda.

Um daginn sá ég þátt á Aljazeera um hátækni hjartaskurðlækningadeild í Ísrael sem bjargar fjölda palestínskra barna sem fæðast með hjartagalla án þess að taka krónu fyrir. Þetta er hugsjónastarf tveggja ísraelskra hjartalækna sem vilja með því leggja sitt af mörkum í von um frið. Foreldrar barnanna fá ekki að fara með þeim heldur eru það tveir Bandaríkjamenn sem sjá um að sækja börnin og skila þeim aftur yfir á palestínska svæðið að aðgerð lokinni. Læknarnir segja að þeir vonist til að foreldrar barnanna sjái að það séu ekki allir Ísraelsmenn slæmir og að þau komi þeim skilaboðum áfram í von um að með tímanum dragi úr hatrinu. Eins eru í Jerúsalem starfandi samtök fólks sem misst hefur ástvini í stríðinu en vilja vinna að friði, í þessum hópi eru bæði Ísraelar og Palestínumenn.

Það sem nú er að gerast hjá Palestínumönnum er valdabarátta ólíkra sjónarmiða og kemur svo sem ekkert á óvart því alls staðar er barist um völd og líka hér á landi. Munurinn er bara hversu ýkt valdabaráttan er þarna þar sem menn drepa hvern annan en auðvitað gera þeir það. Þannig er sá veruleiki sem fólk þarna hefur alist upp við, að drepa þá sem eru ósammála. Það er alltaf auðvelt að sitja í sínum fílabeinsturni og dæma út frá eigin veruleika eins og "sannkristnu" bloggararnir og þáttastjórnendur á Omega gera. Ég hef nokkrum sinnum stillt á þá stöð og nánast í hvert sinn hitt á að verið er að rakka niður Palestínumenn og mæra Ísraela. Einn maður talaði meira að segja um fólk í Palestínu eins og rottur, meindýr sem þyrfti að eyða. Var það ekki Hitler sjálfur sem sagði það sama um gyðinga á sínum tíma?

08 júní 2007

Kína

Ég hef verið að fylgjast með fréttum frá Kína á Aljazeera og finnst ýmislegt benda til þess að farið sé að krauma undir í samfélaginu. Um daginn urðu uppþot í sveitahéruðum þegar erindrekar ríkisins voru að fetta fingur út í að fólkið þar eignaðist fleiri börn en leyfilegt er. Mér finnst ólíklegt að þetta hefði gerst fyrir t.d. tíu árum síðan. Yfirleitt hafa kínversk stjórnvöld ekki skipt sér svo mikið af barneignum fólks í afskekktum héruðum landsins en með aukinni velmegun í landinu og batnandi samgöngum eru þau kannski farin að teygja arma sína lengra. Fyrir stuttu síðan voru svo hávær mótmæli námsmanna gagnvart stjórnvöldum og höftum á tjáningarfrelsi. Í fréttaskýringunni sem ég var að horfa á áðan kom fram að hópur fólks notar Netið til þess að tjá óánægju sína og mætti kannski kalla þau andófshóp á Netinu. Þeim er hótað öllu illu ef þau sjái ekki að sér en enn hafa þau ekki gefið eftir og mér kæmi ekki á óvart að með sama áframhaldi megi búast við einhverjum látum.
Það sem gerist ef marka má stjórnmálafræðinginn Donald Horowitz, er að óánægjan brýst út hér og þar í þessu stóra landi og getur verið þannig í einhver ár að byggja upp undirliggjandi þrýsting. Það má líkja þessu við hræringar í jarðskorpunni sem eru undanfari eldgoss, smáskjálftar hér og þar en á endanum verður stórt gos. Ég held áfram að fylgjast með og er nokkuð viss um að þetta endi með gosi. Tímasetning skiptir miklu máli í tengslum við aðstæður sem leiða til goss. Eins og þegar Berlínarmúrinn féll. Það sem var að gerast í gömlu Sovétríkjunum, glasnost og Gorbatsjov átti stóran þátt í að fólk í A-Þýskalandi þorði að láta til sín taka og mótmæla af því búið var að draga vígtennurnar úr stjórnvöldum. Enga hjálp var að fá frá gamla Sovét.