28 júní 2007

Ólíkur fórnarkostnaður

Það er stundum talað um Kína sem næsta stórveldi í efnahagsmálum. Þar hefur átt sér stað gífurleg breyting og efnahagslegur uppgangur a.m.k. í borgum landsins. Kapítalisminn með sinni efnishyggju er farinn að festa rætur í kínversku samfélagi þó enn lúti landið kommúnískri stjórn, a.m.k. í orði. Nú þurfa allir að eignast rafmagnstæki eins og til eru á hverju heimili á Vesturlöndum (allavega á Íslandi) eins og ísskáp, sjónvarp, tölvu, þvottavél o.s.frv. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þarf mikið rafmagn fyrir öll þessi tæki í fjölmennasta landi heims. Auðvitað bregðast kínversk stjórnvöld við með því að nýta vatnsaflið í landinu eins og við þekkjum svo vel. Það þarf ansi mikið meira en eina Kárahnjúkavirkjun til að uppfylla orkuþörf Kína og því eru þeir ýmist búnir að byggja og með í bígerð að byggja fjölda virkjana. Tvö stórfljót Nu/Salween og Lancang/Mekong eru í sigtinu sem ákjósanlegur virkjanakostur, reyndar er búið að byggja einhverjar virkjanir við Mekong.

Á bökkum þessara tveggja fljóta búa milljónir manna og þó fljótin eigi upptök sín í Kína (ja eða Tíbet) þá renna þau í gegnum fleiri lönd eins og Burma, Taíland, Laos og Víetnam. Áhrifa virkjana við Mekong er farið að gæta nú þegar t.d. þegar þeir "tappa af" stíflunum því þá flæðir fljótið yfir bakkana alla leið niður og það gerist ekki á hefðbundnum tímum eins og um regntímann heldur getur það komið fyrirvaralaust hvenær sem er. Þetta þýðir að garðrækt sem hefur tíðkast á bökkum fljótsins er að leggjast af því hver hefur efni eða orku að rækta garða sem geta eyðilagst hvenær sem er. Ekki nóg með það, heldur er líka aukin umferð vöruflutningaskipa um fljótið. Til þess að greiða fyrir þeim flutningum hafa Kínverjar tekið upp á því að sprengja bæði sker (þar sem fiskur hrygnir) og að dýpka fljótið. Fiskstofnar hafa því hrunið með tilheyrandi afleiðingum fyrir íbúa á bökkum Mekong allt frá Kína niður til Víetnam og nú stendur til að byggja virkjanir við Salween sem rennur í gegnum sömu lönd og Mekong. Í stað þess að vera lífæð SA-Asíu er Mekong nú að breytast í líflausan skipaskurð án þess að fólkið sem byggir tilvist sína á henni geti rönd við reist.

En hvað skal gera þegar marga milljarða vantar rafmagn og það sem fyrst til að geta tekið þátt í þeirri efnishyggju sem er fylgifiskur kapítalismans? Ekki hef ég svör við því en ég verð að viðurkenna að þó ég hafi ekki verið hrifin af Kárahnjúkavirkjun þá finnst mér núna nokkrar gæsir og bleikjur í Lagarfljóti vera hálfgerður brandari miðað við milljónir manna sem sjá fram á að lifibrauði þeirra verði kippt undan fótunum á þeim. Það er allavega ekki saman að líkja fórnarkostnaði vegna Kárahnjúkavirkjunar og virkjana í Kína.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir það að stjórnvöld í einu landi geti tekið ákvarðanir sem hafi áhrif á líf milljóna manna í mörgum öðrum löndum án þess þeir hafi neitt um það að segja. Ekki það, ég efast um að kínverskir íbúar á bökkum Mekong fái nokkuð um málið að segja heldur.






Engin ummæli: