21 júní 2007

Hinir "sannkristnu" í fílabeinsturninum

Fyrir rælni lenti ég inn á bloggsíðu "sannkristins" manns. Ég renndi lauslega yfir færslurnar hans sem voru meira og minna tilvitnanir í Biblíuna og allt í lagi með það. Þegar ég fór svo að skoða kommentin á færslurnar og rekja mig inn á bloggsíður annarra "sannkristinna" manna og kvenna brá mér heldur í brún. Þarna er hópur fólks sem eys úr skálum fordóma og mannfyrirlitningu sinnar. Helstu skotmörkin eru samkynhneigðir og múslimar sem samkvæmt þessum skrifum mætti halda að væru mesta ógn mannkynsins. Sýn þessara bloggara á heiminn er algjörlega tvískipt og einstrengingsleg: kristinn/múslimi, góður/vondur, himnaríki/helvíti o.s.frv. Sérstaklega virðist þeim uppsigað við íbúa Palestínu sem í þeirra huga eru algjör andstæða íbúa Ísraels. Það kaldhæðnislega er að ástæða þess að gyðingar settust að í Ísrael eftir síðari heimsstyrjöldina var að "sannkristnir" Evrópubúar vildu ekki leyfa þeim að búa í hinni "kristnu" Evrópu og voru Íslendingar þar engir eftirbátar þegar þeir meinuðu gyðingum eftirstríðsáranna að setjast hér að.

Ég er hrædd um að annað hljóð væri í strokknum ef Bretar og Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að gyðingar mættu stofna eigið ríki hér á landi án þess að spyrja kóng né prest. Við Íslendingar hefðum verið reknir af heimilum okkar og leyft að setjast að á Vestfjörðum og í Eyjafjarðarsýslu. Þeir sem ekki hefðu sætt sig við það verið leyft að yfirgefa landið og aldrei hleypt inn aftur. Tvær til þrjár kynslóðir okkar hefðu svo alist upp í flóttamannabúðum í Danmörku og Noregi án þess að mega vinna af því þeir teldust flóttamenn. Þeir sem létu sig hafa það að vera reknir vestur og norður fengju ekki sömu réttindi og hinir nýju íbúar (gyðingarnir) þar á meðal læknisþjónustu. Við myndum sennilega með tímanum rísa upp og krefjast réttar okkar (vonandi) en yrðum þá drepin í massavís, heimili okkar eyðilögð, okkur meinað að vinna, hefðum ekkert vatn, ekkert rafmagn, Eyfirðingar múraðir inni og mættu ekki hafa samkskipti við landa sína á Vestfjörðum. Eftir 40 ár væri 70% atvinnuleysi meðal okkar, börnin okkar dæju af niðurgangi (vegna vatnsins), önnur limlest í sprengingum, hver einasta fjölskylda væri búin að missa fjölda ástvina, oft drepna fyrir augunum á þeim og engin von í augsýn um betri framtíð. Ætli þessar helgislepjur sem hampa nú Ísraelsmönnum myndu ekki reyna að berjast gegn þeim.

Hvernig getur fólk sem býr í sínum fínu húsum, berst við offitu vegna ofáts og hreyfingarleysis, keyrir um á fjallajeppunum sínum og fer reglulega í utanlandsferðir, leyft sér að réttlæta þennan yfirgang og mannréttindabrot ísraelska hersins. Það er ekki einu sinni nema hluti af ísraelsku þjóðinni sem leyfir sér svona réttlætingar. Þeim Ísraelum fjölgar stöðugt sem gagnrýna meðferð stjórnvalda sinna á íbúum Palestínu. Maður þarf ekki annað en lesa Haaretz sem er ísraelskt blað og t.d. bloggið hennar Lisu Goldman til að sjá að ekki eru allir íbúar Ísrael samþykkir yfirgangi hers og stjórnvalda.

Um daginn sá ég þátt á Aljazeera um hátækni hjartaskurðlækningadeild í Ísrael sem bjargar fjölda palestínskra barna sem fæðast með hjartagalla án þess að taka krónu fyrir. Þetta er hugsjónastarf tveggja ísraelskra hjartalækna sem vilja með því leggja sitt af mörkum í von um frið. Foreldrar barnanna fá ekki að fara með þeim heldur eru það tveir Bandaríkjamenn sem sjá um að sækja börnin og skila þeim aftur yfir á palestínska svæðið að aðgerð lokinni. Læknarnir segja að þeir vonist til að foreldrar barnanna sjái að það séu ekki allir Ísraelsmenn slæmir og að þau komi þeim skilaboðum áfram í von um að með tímanum dragi úr hatrinu. Eins eru í Jerúsalem starfandi samtök fólks sem misst hefur ástvini í stríðinu en vilja vinna að friði, í þessum hópi eru bæði Ísraelar og Palestínumenn.

Það sem nú er að gerast hjá Palestínumönnum er valdabarátta ólíkra sjónarmiða og kemur svo sem ekkert á óvart því alls staðar er barist um völd og líka hér á landi. Munurinn er bara hversu ýkt valdabaráttan er þarna þar sem menn drepa hvern annan en auðvitað gera þeir það. Þannig er sá veruleiki sem fólk þarna hefur alist upp við, að drepa þá sem eru ósammála. Það er alltaf auðvelt að sitja í sínum fílabeinsturni og dæma út frá eigin veruleika eins og "sannkristnu" bloggararnir og þáttastjórnendur á Omega gera. Ég hef nokkrum sinnum stillt á þá stöð og nánast í hvert sinn hitt á að verið er að rakka niður Palestínumenn og mæra Ísraela. Einn maður talaði meira að segja um fólk í Palestínu eins og rottur, meindýr sem þyrfti að eyða. Var það ekki Hitler sjálfur sem sagði það sama um gyðinga á sínum tíma?

Engin ummæli: