02 september 2007

Trúboðar

Fyrir utan kirkjur í Bandaríkjunum þá senda kristnar kirkjur í S-Kóreu flesta trúboða úr landi til að boða kristna trú.
Ég var að horfa á áhugaverðan þátt þar sem verið var að ræða mál S-kóresku trúboðanna í Afghanistan. Hversu siðlegt eða gáfulegt er það að senda hóp af ungu fólki á hættuleg átakasvæði eins og Afghanistan til þess að stunda trúboð? 25% af S-kóresku þjóðinni eru kristinnar trúar og því ættu að vera nægar sálir á þeirra heimaslóðum til að flytja boðskapinn til.

Af hverju þá að senda trúboða á svæði þar sem mikil neyð ríkir, ekki til að vinna hjálparstarf og líkna særðum og sjúkum heldur til að boða kristna trú. Eru kristnir trúboðar þá ekki að notfæra sér neyð fólksins til þess að koma boðskapnum til þeirra, eins og einn viðmælandi vildi meina. Annar viðmælandi benti á að kristnir trúboðar hefðu stundað þetta frá upphafi. Undantekningarlaust hefðu nýlenduherrar fylgt í kjölfarið á trúboðum til þess að gera lönd að nýlendum þegar trúboðarnir voru búnir að undirbúa jarðveginn fyrir komu þeirra. Persónulega þá tel ég trúboða hafa eyðilagt heilu samfélagin með hroka og skilningsleysi á hefðum innfæddra. Ég las t.d. ferðabók Vilhjálms Stefánssonar þar sem hann sagði trúboða hafa hamrað svo á þvi við inúítana að halda ætti hvíldardaginn heilagann að enginn þorði að veiða sunnudögum. Þá skipti ekki máli þótt ekki hefði gefist veður á sjó alla vikuna og ekkert væri til að borða. Svo mikið óttuðust þeir refsingu Guðs við að brjóta helgi hvíldardagsins, enda voru trúboðar þá ekki mikið að boða ást og kærleika heldur lögðu ríka áherslu á Helvíti og hinn refsandi Guð.

Prestur sem talað var við í þættinum sagði trúboðana fara til landa eins og Afghanistan til að boða kærleika og það væri réttur fólks að trúa því sem það vildi. Hann sagði að venjan væri sú að trúboðar öfluðu sér fyrst trausts innfæddra og þegar það væri komið þá færði það þeim orð Guðs. Hmmm ég segi nú eins og einn viðmælandinn, já en afhverju endilega í múslímsku landi þar sem fólk býr við mikla neyð. Af hverju ekki í eigin heimalandi þar sem 75% þjóðarinnar er ekki kristinnar trúar?



 

Engin ummæli: