16 nóvember 2007

Heilagar barnamaskínur

Hvað skyldi það taka marga áratugi fyrir konur í Írak að ná aftur þeim stað sem þær voru komnar á fyrir innrás Bandaríkjamanna. Borgin Basra er í suðurhluta Íraks þar sem shítar hafa töglin og hagldirnar í samfélaginu og þeirra markmið er að koma konum og þeirra réttindum langt aftur í aldir. Menntaðar konur eins og læknar, dómarar, lögfræðingar o.s.frv. hafa margar að engu haft varnaðarorð klerkanna um að konur skuli halda sig innan heimilisins og mætt til vinnu með afdrifaríkum afleiðingum. Margar þeirra hafa verið teknar af lífi með afhöfðun og höfuðin skilin eftir á tröppum heimila þeirra öðrum til varnaðar. Talið er að u.þ.b. fimmtán konur séu myrtar á mánuði í Basra af öfgamönnum eins og í Mahdi her al-Sadrs án þess að lögreglan þar geti nokkuð að gert. Þrátt fyrir að í stjórnarskránni sé talað um jafnan rétt kvenna þá eru lög Islam yfir hana hafin. Ég tek fram þessi lög Islam eru að sjálfsögðu bara túlkun öfgamanna eins og al-Sadr á Kóraninum. Reyndar er það ekkert einsdæmi fyrir öfgashíta í Írak að ýta konum aftur inn á heimilin til þess að búa til fleiri hermenn og endurnýja þannig þjóðina með barneignum.
       Í síðari heimsstyrjöldinni voru konur í Bandaríkjunum hvattar til að ganga í hefðbundin karlastörf enda allir vopnfærir karlar að vega mann og annan út um allan heim og einhver þurfti að búa til vopnin handa þeim, sauma einkennisbúningana, yrkja jörðina, framleiða dósamat o.s.frv. (þá var ekki komið í tísku að nota innflutt vinnuafl). Þegar karlarnir sneru aftur (það sem eftir var af þeim) þá máttu konurnar gera svo vel og koma sér aftur inn á heimilin til að endurnýja þjóðina fyrir næsta stríð. Munurinn á þessum tveim dæmum um konur sem barnamaskínur er bara að shítarnir í Basra eru margfalt öfgakenndari og eru ekkert að fara í felur með hvert þeir telja hlutverk kvenna hér á jörð. Bandaríkjamönnum tókst aftur á móti að selja konum sínum þá hugmynd að þær væru María Jesúmóðir eftirstríðsáranna. Eins og hún höfðu .þær því helga hlutverki að gegna, að eignast syni. Enn í dag eru konur í Bandaríkjunum ansi aftarlega á merinni í jafnrétti kynjanna a.m.k. ef miðað er við Ísland og nágrannalöndin og í mörgum samfélögum þar sem kristnir öfgamenn eru sterkir er þetta Madonnu viðhorf til kvenna enn mjög ríkjandi. Það er náttúrulega mun sterkari leikur að fá konur til að trúa þessu sjálfar. Þó Bush hafi mistekist þetta með lýðræðið í Írak þá getur hann alla vega kennt al-Sadr og félögum hvernig á að fá konur til að sætta sig við það hlutverk að vera „heilagar“ barnamaskínur án þess að þurfa að beita jafn subbulegum aðferðum og afhöfðunum.

Engin ummæli: