29 október 2007

Slæður og "slæður"

Fyrir einhverjum mánuðum síðan varð mikið uppnám þegar nokkrar alþingiskonur í heimsókn í Sádi Arabíu skelltu slæðum á höfuðið þegar þær heilsuðu upp á fyrirmenn landsins, svona til að sýna almenna kurteisi við siði þar í landi. Ég man að Steinunn Jóhannesdóttir fór mikinn í pistli sem hún skrifaði í Fréttablaðið að mig minnir og í netheimum tóku margir undir fordæmingu hennar á þessu uppátæki alþingiskvenna. Að bera slæðu eins og einhver kúguð múslima kerling, fussum svei.
Í síðustu viku heilsuðu Geir Haarde og spúsa hans Inga Jóna upp á páfann í Róm og birtust myndir af þeim þegar Geir afhenti umboðsmanni Guðs hér á jörð nýja og umdeilda útgáfu af biblíunni. Viti menn er ekki Inga Jóna með svarta blúnduSLÆÐU yfir hárinu (hefði sjálfsagt ekki fengið að hitta páfa slæðulaus) og nú ber svo við að ekki heyrist píp neins staðar. Það er sem sagt allt í lagi að þurfa að setja upp slæðu fyrir páfann og jafngildir ekki því að taka undir kaþólska kvennakúgun. Ég hef heldur ekki heyrt neinar hneykslunarraddir fordæma þá reglu í Péturskirkjunni í Róm að konur og karlar verði að vera siðsamlega til fara þar inni, með hulda fótleggi og alls ekki í hlírabolum þó hitinn sé um 40°C. Um alla kirkju eru siðgæðisverðir (í orðsins fyllstu merkingu) sem reka þá umsvifalaust út sem brjóta reglur um klæðaburð. Hvar er Steinunn Jóhannesdóttir núna??

Engin ummæli: