23 ágúst 2007

Jesús og María

Jæja þá er komið að fæðingu Jesú og hlutverki hans í Islam. María var heimsótt af engli (já það eru líka englar í islam) í karlmannslíki sem sagði að hann væri sendur af Guði til að tilkynna henni að hann myndi gefa henni heilagan son. Það kom Maríu nú frekar á óvart þar sem hún var bæði ógift og hrein mey (það er ekki minnst á neinn Jósef). Það er ekkert mál sagði engillinn, Guð er alls megnugur og fer létt með að búa til eitt barn.

Ekkert er minnst á hvað gerðist hjá Maríu í framhaldi af því fyrr en kemur að því að hún fæðir. Þá fer hún ein í vin í eyðimörkinni og fæðir í kyrrþey undir döðlupálma. Þegar hún kemur aftur til byggða með barnið í fanginu þá rekur fólk að sjálfsögðu upp stór augu og fer að spyrja hana hvernig standi á þessu. Hún segir ekki neitt en bendir bara á barnið sem þeim til undrunar er altalandi (vegna anda Guðs í honum) og svarar sjálfur: ég er þjónn Guðs og hann hefur gefið mér opinberun og gert mig að spámanni. Hann hefur fyrirskipað mér að helga mig bæn og líknarstarfi. Friður sé með mér þann dag sem ég fæddist, þann dag sem ég dey og þann dag sem ég rís upp frá dauðum.

Ástæðan fyrir því að Jesús er ekki talinn sonur Guðs er sú að það myndi gera hann að jafningja Guðs en það er ómögulegt því það er bara EINN Guð. Því er fæðing hans og getnaður kraftaverk Guðs sem síðan blæs í hann anda sínum og gerir hann að spámanni. Enn bendi ég á að Islam þýðir beina brautin sem er vegna þess að Múhammeð taldi menn hafa villst af leið frá braut Guðs. Móses var fyrsti spámaðurinn til að beina mönnum á brautina aftur.. Það sama átti við um þegar Jesús var gerður að spámanni, að rétta af kúrsinn. Múhameð var svo síðasti spámaðurinn sem Guð gerði út af örkinni til að koma mönnum einu sinni enn á beinu brautina. Því var honum fengið það hlutverk að skrifa niður orð Guðs svo menn hefðu það loksins svart á hvítu hvernig ætti að halda sig á beinu brautinni. Því hefur Kóraninn sömu stöðu í hugum múslima eins og Jesús í hugum kristinna. Hann er ekki bara helg bók heldur er hann holdgerving orðs Guðs. Kristnin hafði afvegaleiðst með því að gera Jesús að jafningja Guðs sem stangast á við fyrsta boðorðið "þú skalt eigi aðra Guði hafa".

Elstu súrurnar í Kóraninum eru skrifaðar af Múhameð spámanni en löngu eftir hans dag söfnuðu islamskir spekingar ýmsum sögum sem taldar voru hafðar eftir Múhameð og bættu því inn í Kóraninn. Islamskir guðfræðingar hafa allar götur síðan deilt um réttmæti þeirra í honum.
Fæðing Jesú er í súruh 19:16-40

1 ummæli:

AnnaKatrin sagði...

Skemmtileg lesning og gaman að lesa þessa síðu þegar ,,andinn" kemur yfir þig. Hafðu það gott mín kæra.
ak