08 október 2007

Mannfræðingar á átakasvæðum

Það er svo sem ekkert nýtt að þekking og reynsla mannfræðinga hafi verið nýtt á stríðstímum. Þeir mannfræðingar og aðrir félagsvísindamenn sem voru að vinna fyrir eða í þágu bandarískra stjórnvalda í t.d. Víetnam og rómönsku Ameríku voru almennt litnir hornauga og stjórnvöld sökuð um að hafa misnotað þá. Nú á enn og aftur að leita í þekkingarbrunn þessara vísinda og hafa bandarísk stjórnvöld veitt 40 milljónum dollara í það verkefni að ráða teymi mannfræðinga og annarra félagsvísindamanna í allar hersveitir Bandaríkjamanna í Írak og Afghanistan. Þetta hefur kallað á viðbrögð frá akademíunni sem óttast að þrátt fyrir góðan ásetning þá verði raunin sú að litið verði á þá sem njósnara fyrir Bandaríkjamenn, sérstaklega í Írak, með afdrifaríkum afleiðingum. Aðstæður í Afghanistan eru ekki eins erfiðar og í Írak og þar hefur að sögn gefist vel að hafa mannfræðing í hersveitum. Samskipti hermanna við heimamenn hafa batnað og aukin samvinna við þá átt sér stað. Mannfræðingar og aðrir félagsvísindamenn eru auðvitað bara eins og annað fólk, með ólíkar skoðanir. Það sem einum finnst vera að vinna fyrir slæman málstað finnst öðrum vera að leggja sitt lóð á vogarskálina til betri heims. Ég er samt sammála því að það væri að bæta olíu á ófriðarbálið og í raun sjálfsmorðstilraun þeirra mannfræðinga sem ætla að vinna með bandaríska hernum í Írak.

Heimild The New York Times

Engin ummæli: